Hver ber ábyrgð á götum borgarinnar?

Júnírigning í febrúar og ég enn einu sinni villtur í Reykjavík, nú í þessu skelfilega hverfi sem ég hef aldrei vitað hvað heitir en er sennilega vanalega kallað Hálsar eða Höfði; þeir sem hönnuðu þessi ósköp ættu hvorki að vera með háls né höfuð; hvergi er gefið til kynna hvernig á að rata um þessar götur, þær eru væntanlega ekki í neinu kerfi og botnlangar koma sífellt á óvart; ekki mjög grænt hverfi og svo gnæfir Orkuveitan upp úr öllu eins og bergrisi; maður verður ekki bara þreyttur þarna og dapur heldur líka hræddur.

 Hver hannaði þennan fjanda? Hvaða fólk er á bak við reykvískt gatnakerfi? Mætti biðja þetta fólk um að gefa sig fram? Hefur það sjálft þurft að keyra í borginni? Eða ganga? Ha, ha! Nei, þetta var brandari. Það er ekki gert ráð fyrir gangandi fólki í borginni eins og allir vita. Og ekki hjólandi heldur.

Er þetta fólk ekki með hiksta allan daginn? Hættir það sér nokkurn tímann út úr húsi? Ég hef aldrei séð fólkið sem stendur á bak við vegakerfi Reykjavíkur? Eru það álfar sem skipuleggja vegina í borginni? Eða hvers vegna kemur þetta fólk ekki fram og útskýrir fyrir okkur hvernig við eigum að lesa úr þessum torræðu táknum?

Í alvöru: Mætti maður að minnsta kosti vita hvaða kvalifíkasjónir reykvískir gatnagerðamenn hafa?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband