13.2.2007 | 00:18
Jón Ásgeir á hlaupum með Bónuspoka
Enn einu sinni birtist Jón Ásgeir Jóhannesson í fréttum á harðahlaupum undan sjónvarpsmönnum; af hverju stendur maðurinn aldrei kjur á meðan rætt er við hann í sjónvarpi? það myndi óneitanlega koma betur út fyrir hann; það orkar nefnilega illa á áhorfendur að sjá mann flýja myndavél, það er engu líkara en hann hafi eitthvað að fela, eins og hann vilji ekki láta sjá framan í sig, vilji ekki horfast í augu við okkur; maður hefur allt aðra tilfinningu fyrir manni sem stendur keikur frami fyrir myndavélinni, hleypir fréttamanninum að sér og svarar spurningum hans.
Það var þó snilld að mæta með Bónuspoka í dómsalinn. Með honum talaði Jón Ásgeir til þeirra áhorfenda sem hafa líklega mesta samúð með málstað hans, Bónusverslandi almennings sem er jú sennilega meirihluti þjóðarinnar eða hátt í það. Hingað til hefur málið jú ekki síst snúist um almenningsálitið og Bónuspokinn vinnur tvímælalaust samkeppnina um það við svarbláu kuflana sem valdakerfið skartaði í dómsalnum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.