12.2.2007 | 22:34
Sturla, leggjum peningana í eitthvað sem borgar sig
Maður var satt að segja svolítið svag fyrir áætlun Þorgerðar Katrínar um að leggja þrjá milljarða í Háskóla Íslands, jafnvel þótt kosningafnykur hafi verið af málinu. Sennilega er maður tilbúinn til að trúa (og fagna með) menntamálaráðherra vegna þess að málefnið er svo gott og svo sjaldgæft að aðrar eins áætlanir séu uppi um eflingu Háskólans (sem er auðvitað æðsta og besta háskólastofnun okkar hvað sem Bifröstungar og Hr-ingar segja). Notkun Sivjar Friðleifsdóttur á Framkvæmdasjóði aldraðra til þess að gefa út og auglýsa stefnu sína í málefnum aldraðra var hins vegar hreint og beint siðlaus. En vegagerðaráætlun Sturlu hittir hreint og beint ekki í mark, einfaldlega vegna þess að Sturla er ekki trúverðugur, og trikkið er jú eitt það elsta í bókinni. Þessi vegaáætlun verður skorin niður fljótlega eftir kosningar eins og alltaf, þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Reyndar sem betur fer því að þessi borgöt í fjöll úti um sveitir eru ekki bara lýti á landinu heldur líka fullkomin peningasóun. Kaupum frekar bækur fyrir þessa peninga svo að nemendur háskólanna geti fræðst um til dæmis arðsemisútreikninga gangaframkvæmda. Leggjum peningana frekar í menningarstarsemi og útflutning hennar, íslenskir listamenn þurfa stærri markað. Leggjum peningana í uppbyggingu á kennaramenntun í landinu svo að börnin okkar komist í fremstu röð. Leggjum peningana í markaðssetningu og ímyndaruppbyggingu fyrir kennarastörf í landinu og umönnunarstörf. Borgum þessum stéttum síðan betri laun. Það er nóg af verkefnum séum við að tala um milljarða á lausu. Sturla, leggjum peningana í eitthvað sem borgar sig.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.