Framsóknarflokkurinn og nýja pólitíkin

Væri það ljótt af manni að viðurkenna að ákveðin fagnaðartilfinning hríslaðist um kroppinn yfir gengi Framsóknarflokksins í skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag? Já, kannski, maður á ekki að fagna óförum annarra, en það hefur reyndar mátt greina fögnuð í viðbrögðum fleiri bloggara í dag yfir þessum fréttum og hvað segir það okkur um Framsókn? Það er staðreynd að Framsóknarflokkurinn hefur farið illa að ráði sínu undanfarin ár, einkavinavæðingin í söluferli Búnaðarbankans og stóriðjustefnan eru dæmi sem þarf ekki að tíunda mikið frekar. Jón háseti hefur verk að vinna. Af tilburðum hans hingað til að dæma á honum ekki eftir að verða mikið ágengt. AÐ missa flokkinn niður í 3.9% er auðvitað framistaða sem segir allt sem segja þarf. Reyndar er Framsóknarflokkurinn ótrúlega seinheppinn, núna er engu líkara en hann sitji uppi með Byrgismálið eins og flest klúður í langri sögu samstarfsins við Sjálfstæðisflokkinn, Framsókn hefur jú verið með félagsmálaráðuneytið á sinni könnu. Á meðan Magnús liggur í vörn kemur Geir fram eins og lausnarengill, segist ætla að bregðast við, veit hjálp, áfallahjálp. En auðvitað eru það fyrst og fremst stóriðjumálin sem hafa fælt fylgið frá Framsókn og eina leiðin fyrir flokkinn upp skortöfluna aftur er að breyta málflutningi sínum í þeim efnum, koma með nýjar lausnir, kosningarnar í vor snúast um nýjar leiðir til þess að halda áfram að vaxa, verða betri, fjáðari, mannlegri, menntaðri. Andri Snær lagði m.a. til landbúnað í Draumalandinu. Hvers vegna tók Guðni hann ekki á orðinu? Guðni hefði fengið mörg prik fyrir, þótt hann hefði bara látið nægja að taka undir með Andra. Andri og fólkið allt í Framtíðarlandinu hefur í raun verið að kalla eftir nýrri tegund af pólitík, pólitík sem er ekki hagsmunatengd, ekki byggð upp í kringum ákveðinn geira atvinnulífsins eins og flokkar 20. aldarinnar og ekki rígbundnir við trúarbrögð markaðskerfis eða ríkisrekstrar, hægrimennsku eða vinstrimennsku, heldur pólitík sem fjallar um heiminn eins og hann er núna, um umhverfi mannsins núna, samfélag mannsins núna, og reynir að finna lausnir sem eiga við núna. Stóriðja á ekki við núna. Hún var lausn 20. aldar. Núna erum við að glíma við afleiðingar hennar og þurfum að bregðast við á nýjan hátt. Við þurfum að hugsa öðruvísi og við þurfum að hugsa hratt. Framsóknarflokkurinn er ekki fljótur að hugsa, hann er hægur, hann er að dragast aftur úr. Það er staðreynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband