11.2.2007 | 17:38
Staðreyndir án sjálfsævisögu
Pessoa skrifaði sjálfsævisögu án staðreynda, hér verða skrifaðar staðreyndir án sjálfsævisögu.
Byrjum á nokkrum: Pessoa var gott skáld, talsvert betra en Saramago sem fékk Nóbelinn en Pessoa ekki; Jónas var líka gott skáld en Matti Joch leiðinlegt, nema í sjálfsævisögunni sem er þó ekki eins góð og Pessoas, reyndar langt frá því; Íslendingar eru í miklu betri tengslum við umheiminn nú en á tímum Jónasar og Matta, samt erum við langt á eftir, eins og litli feiti pjakkurinn sem var alltaf með besta nestið og átti alltaf nýjasta dótið og nóg af nammi en var alltaf síðastur í leikfimi og þurfti alltaf að sitja eftir vegna þess að sykurneyslan og sjónvarpsgláp fram eftir nóttu drógu úr athyglinni og gerðu hann seinan að hugsa; við erum sein að hugsa; íslensk pólitík er á eftir, íslenskt atvinnulíf er löngu búið að stinga hana af og íslensk menning líka, í íþróttum höfum við alltaf verið síðust, svona nokkurn veginn.
Geir Haarde sagði í Silfri Egils í dag að Hafnfirðingar ættu að samþykkja stækkun álversins í Straumsvík; hann er á eftir, hann er of seinn að hugsa; hann vill frekar vera samkvæmur sjálfum sér og flokknum en að hugsa hratt og fram veginn; trúin á að vera samkvæmur sjálfum sér getur unnið gegn stjórnmálamönnum, hún getur hægt á hugsuninni, seinkað betri lausnum; Geir hefði átt að koma með aðra og betri lausn en stækkun álversins fyrir íslenskt efnahagsástand; þá væri hægt að kjósa hann því Geir er með viðkunnanlegustu stjórnmálamönnum sem komið hafa fram á sjónarsviðið hér á landi í áraraðir, einstaklega gæðalegur maður; en hann verður að gera betur en þetta, hann þarf að hugsa hraðar, við þurfum á því að halda. Það er staðreynd!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.