24.2.2007 | 10:04
Standandi klapp
Fór á frumsýningu Íslenska dansflokksins í gærkvöldi, hún var ágæt, og auðvitað var á endanum risið úr sætum og klappað fyrir dönsurunum, ekki vegna þess að þeir ættu það endilega skilið heldur vegna þess að það myndaðist þessi spenna í fótleggjum áhorfendanna sem á endanum virðist alltaf eða nánast undantekningalaust sprengja þá upp úr sætunum klappandi og jafnvel húrrandi og hóandi;
Það er misskilningur að sýningar eigi alltaf að fá standandi klapp;
Sýningar eiga bara að fá standandi klapp og hó ef þær eru einstaklega góðar, framúrskarandi;
Standandi klapp á kannski við á einni eða tveimur sýningum á ári!
Þó oftar hjá Dansflokknum en Leikfélaginu, eða íslensku leikhúsi yfirleitt;
En, í guðanna bænum reynið að sitja á ykkur næst nema sýningin hafi verið hreinsta snilld!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2007 | 18:55
Þjófabálkur Króníkunnar
Það sem vekur mesta athygli í Króníkunni er að hún stelur nokkrum ítemum úr Mogganum.
Turninn er auðvitað skopstæling á Staksteinum og vel heppnuð sem slík
En síðan hefur hún einnig nappað tengslunum þar sem tengt fólk, systkin til dæmis, er fengið til að lýsa hvort öðru;
Einnig er Lesarinn úr Lesbók í blaðinu undir titlinum Verkið, ef rétt er munað;
Þessi þjófnaður er ekki eins vel heppnaður. Orgínalarnir betri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2007 | 18:49
Stutt Króníka?
Króníkan er ekki vel heppnað blað; í hana vantar gredduna, stóru fréttaskýringarnar um heitu málin;
tilraun til að gera klámráðstefnuna að aðalumræðuefni nýja heftisins er misheppnuð vegna þess að á útgáfudegi breyttist málið í hneykslismál um ógestrisni og taktleysi og hræsni íslenskra bænda;
lay-out-ið er ekki gott, lokkar mann ekki inn í greinarnar, hugsanlega reddar fréttaskýring um fjármál heimilanna nýja heftinu, en það er þó hæpið;
þið verðið að gera betur!
annars verður þessi króníka heldur stutt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2007 | 18:42
Klámhögg bænda
Eitt verð ég að segja áður en lengra er haldið:
Þessi búnaðarbálkur sem þjóðinni hefur verið boðið upp á síðustu daga er klámhögg;
bændur geta ekki verið þekktir fyrir að hafna framleiðendum þess efnis sem þeir selja á býli sínu um gistingu;
hvað hefur orðið um gestrisni íslensku bændastéttarinnar?
mér er öllum lokið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2007 | 18:40
Styttingur um klám
Íslendingar eru að verða óþægilega kórréttir í hugsun; nýjasta dæmið er klámráðstefnan; hver talsmaðurinn og pólitíkusinn étur það upp eftir öðrum að það eigi að stöðva þetta fólk við landamærin, senda þau heim með skömm, við viljum ekkert klám hér; og alls ekki barnaklám!
Nei, auðvitað viljum við ekki barnaklám og ekkert kynferðislegt ofbeldi, ekki mansal og nauðganir eða vændi; en hefur einhver spurt þetta fólk hvort það ætli að fjalla um eða prómótera með einhverjum hætti barnaklám, vændi, mansal eða annað ofbeldi? maður hefur ekki orðið var við það;
skilja má á fréttum að hér sé um að ræða hóp af áhugafólki um klám sem ætli að hittast hér til þess að skemmta sér; líklega er það ekki ólöglegt; fólkið tekur líklega myndir af hvert öðru fáklæddu; það er heldur ekki ólöglegt; kannski fer það í dónalega leiki; ætli það kunni til dæmis stytting? það er leikur fyrir karlmenn og vanalega leikinn í Skagafirði, á Reykjaströnd, tengist sögunni um Gretti, segi ekki meir ... hann er ekki ólöglegur en sumum þykir hann dónalegur; hið sama á væntanlega og vonandi við um það sem ráðstefnugestir ætla að taka sér fyrir hendur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2007 | 11:49
Hvernig er talað á leikskólum?
Þau eru teljandi á fingrum annarrar handar sem hafa íslensku að móðurmáli á leikskóla barnanna minna.
Hvað þýðir þetta?
Þetta þýðir að börnin lifa við bjagaða íslensku og fábrotið orðafar lungann úr deginum.
Þetta þýðir líka að leikskólakennarar eru láglaunastétt sem Íslendingar flýja úr. Fyrir 6 árum höðfu allir sem störfuðu á leikskólanum okkar íslensku að móðurmáli.
Er þetta eitthvað sem við þurfum að huga að?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2007 | 22:58
Frábær mynd um miðaldurskrísuna
Sá frábæra bíómynd í gær, Little Children eftir ameríkanann Todd Field, en myndin fjallar um fólk sem er í vondum hjónaböndum (Kate Winslet og Patrick Wilson) og reynir að bæta óhamingjuna með framhjáhaldi, lætur sig síðan dreyma um framhaldslíf framhjáhaldsins en glímir líka við samviskubit sitt og það sem verra reynist, samvisku hins ameríska millistéttarsamfélags sem leyfir ekkert líf sem er öðruvísi, og auðvitað ekki heldur afbrigðilega kynhneigð frekar en kannski íslendingar, en myndinni tekst að leiða í ljós hvað er stutt á milli réttlátrar reiði og varúðar annarsvegar og hættulegrar fordæmingar;
leikur aðalleikaranna er mjög góður en það sem gerir þó þessa mynd að miklu miklu betri mynd en hina venjulegu Hollywoodframleiðslu, sem öllu er að eyða hér, er frábærlega vel unnið og yfirvegað handrit eftir Field þennan og Tom Perrotta sem er einnig skáldsagnahöfundur (Bad Haircut, 2001, og Election, 1999);
titill myndarinnar gæti villt á henni heimildir; myndin fjallar ekki um illa meðferð á börnum eða neitt slíkt, þótt einn maður í henni hafi kynferðislegar langanir til barna; myndin fjallar umfram allt um hina alþekktu krísu miðaldursins þegar fólk áttar sig á því að það ekkert framundan nema endurtekning á því sama og það það hefur upplifað í áraraðir, þegar æskan kemur til manns í endurteknum myndum í börnunum, þegar besti tími dagsins er kraftganga um nágrenni heimilisins í einhverju hallærislegu átfitti og kynlíf er ekki einu sinni gamall vani
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2007 | 17:22
Sund í myrkri
Myrkvaðir matsölustaðir eru að slá í gegn í Kína; fólk hellir niður á hvert annað og þarf að treysta á bragðskynið við að bera kennsl á matinn en á móti fá viðskiptavinir að þreifa á þjónunum; þetta er frábær hugmynd! Kínverjar eru að stinga okkur af; við þurfum að leggja höfuðið í bleyti; hvað með oflýst kaffihús sem neyðir fólk til að loka augunum og treysta á heyrn og þreyfiskyn! nei, of líkt kínversku hugmyndinni; þöglar bíómyndir! nei, búið að gera það; þöglir tónleikar! hmm? sennilega búið að gera það líka; bílaverkstæði í þyngdarleysi! já! það gæti virkað; eigandinn fengi að sitja í bílnum á meðan; enn betra væri líkamsrækt í þyngdarleysi, hárgreiðsla í sundlaug, sund í myrkri væri líka skemmtilegt ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2007 | 11:54
Hver ber ábyrgð á götum borgarinnar?
Júnírigning í febrúar og ég enn einu sinni villtur í Reykjavík, nú í þessu skelfilega hverfi sem ég hef aldrei vitað hvað heitir en er sennilega vanalega kallað Hálsar eða Höfði; þeir sem hönnuðu þessi ósköp ættu hvorki að vera með háls né höfuð; hvergi er gefið til kynna hvernig á að rata um þessar götur, þær eru væntanlega ekki í neinu kerfi og botnlangar koma sífellt á óvart; ekki mjög grænt hverfi og svo gnæfir Orkuveitan upp úr öllu eins og bergrisi; maður verður ekki bara þreyttur þarna og dapur heldur líka hræddur.
Hver hannaði þennan fjanda? Hvaða fólk er á bak við reykvískt gatnakerfi? Mætti biðja þetta fólk um að gefa sig fram? Hefur það sjálft þurft að keyra í borginni? Eða ganga? Ha, ha! Nei, þetta var brandari. Það er ekki gert ráð fyrir gangandi fólki í borginni eins og allir vita. Og ekki hjólandi heldur.
Er þetta fólk ekki með hiksta allan daginn? Hættir það sér nokkurn tímann út úr húsi? Ég hef aldrei séð fólkið sem stendur á bak við vegakerfi Reykjavíkur? Eru það álfar sem skipuleggja vegina í borginni? Eða hvers vegna kemur þetta fólk ekki fram og útskýrir fyrir okkur hvernig við eigum að lesa úr þessum torræðu táknum?
Í alvöru: Mætti maður að minnsta kosti vita hvaða kvalifíkasjónir reykvískir gatnagerðamenn hafa?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2007 | 23:13
Hraustleikamerki á Samfylkingunni?
Pólitík | Breytt 14.2.2007 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)