16.2.2007 | 22:58
Frábær mynd um miðaldurskrísuna
Sá frábæra bíómynd í gær, Little Children eftir ameríkanann Todd Field, en myndin fjallar um fólk sem er í vondum hjónaböndum (Kate Winslet og Patrick Wilson) og reynir að bæta óhamingjuna með framhjáhaldi, lætur sig síðan dreyma um framhaldslíf framhjáhaldsins en glímir líka við samviskubit sitt og það sem verra reynist, samvisku hins ameríska millistéttarsamfélags sem leyfir ekkert líf sem er öðruvísi, og auðvitað ekki heldur afbrigðilega kynhneigð frekar en kannski íslendingar, en myndinni tekst að leiða í ljós hvað er stutt á milli réttlátrar reiði og varúðar annarsvegar og hættulegrar fordæmingar;
leikur aðalleikaranna er mjög góður en það sem gerir þó þessa mynd að miklu miklu betri mynd en hina venjulegu Hollywoodframleiðslu, sem öllu er að eyða hér, er frábærlega vel unnið og yfirvegað handrit eftir Field þennan og Tom Perrotta sem er einnig skáldsagnahöfundur (Bad Haircut, 2001, og Election, 1999);
titill myndarinnar gæti villt á henni heimildir; myndin fjallar ekki um illa meðferð á börnum eða neitt slíkt, þótt einn maður í henni hafi kynferðislegar langanir til barna; myndin fjallar umfram allt um hina alþekktu krísu miðaldursins þegar fólk áttar sig á því að það ekkert framundan nema endurtekning á því sama og það það hefur upplifað í áraraðir, þegar æskan kemur til manns í endurteknum myndum í börnunum, þegar besti tími dagsins er kraftganga um nágrenni heimilisins í einhverju hallærislegu átfitti og kynlíf er ekki einu sinni gamall vani
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 22:59 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.